144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:12]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ágætisspurning. Ég get ekki séð neitt annað fyrir mér en einhvers konar náttúruhamfarir sem gætu orðið til þess að menn þyrftu að taka slíka ákvörðun. Við vitum að hæstv. forsætisráðherra vill ráða ýmsum hlutum, vill geta ákveðið ákveðna hluti einn og sér, hvert tilteknir menningarstyrkir fara og ekkert vera með of flókið kerfi í útdeilingu þeirra þótt um opinbera fjármuni sé að ræða. Hann vill geta fært til umsýslumörk lögregluumdæma, verndað ákveðna byggð án þess að það sé til umfjöllunar nokkurs staðar. Í þessu máli hér vill hann geta flutt til heilu og hálfu stofnanirnar. Auðvitað vitum við það, vegna þess að við erum áhugafólk um dægurmál og stjórnmál og fréttir, að sú ákvörðun er tekin í hendingskasti, tekin í símtali í bíl, í útvarpsviðtali. Það er þannig með hæstv. forsætisráðherra að hann tekur alls konar slíka ákvarðanir og hann er með hóp af fólki í kringum sem er meðvirkt með þeirri skoðun hans að hann eigi að ráða alls konar hlutum og enginn sé betri til þess fallinn en hann til þess að ráða þeim hlutum, vegna þess að hann er gott stjórnvald, hann er með góðar skoðanir en ekki rangar. Þetta fólk grípur ákvarðanir hans í fang sér og reynir að gera gott úr þeim, eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerir í þessu tilfelli. Hann tekur málið í fangið og rennur með það á rassinn og endar með því að þurfa að biðja menn afsökunar á því og segir við almenning allan að hann þurfi eins og allir aðrir að læra af mistökum sínum. En þetta er fyrst og fremst klúður sem hann tekur í fangið frá hæstv. forsætisráðherra. Það er spurning sem er meira guðfræðilegs eðlis hversu lengi þetta ástand eigi að vara.