144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:19]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að vissu leyti finnst mér hér vera á ferðinni tvö frumvörp, annars vegar frumvarp sem kveður á um heimild til ráðherra að færa stofnanir til í landinu að eigin vild, á hinn bóginn er um að ræða þá grunnhugsun að leggja af formlegt samstarf um mótun siðareglna þar sem að koma fulltrúar verkalýðshreyfingar, forstöðumenn stofnana og utanaðkomandi aðilar t.d. úr háskólaumhverfinu. En eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. þm. Róberts Marshalls finnst mér skýrt samhengi vera þarna á milli. Hann teflir saman í sínu máli ágætlega sem andstæðum mikilvægi þess að hafa hreyfanleika í kerfinu, að fólk geti fært sig til þannig að hæfileikarnir gagnist sem best og hins vegar gagnsæi og auglýsingum starfa. Þetta eru tvö sjónarmið sem vegast á. En einmitt vegna þess hve óskýr þessi landamæri eru er mikilvægt að hafa í gangi stöðuga vinnu um mótun siðareglna sem taka á óljósum þáttum eins og þessum. Þannig að mín spurning til hv. þingmanns er þessi: Erum við ekki sammála um að þarna sé mjög skýrt samhengi á milli?