144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:25]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum alveg sammála um þetta efni. Það er athyglisvert að skoða umsagnir stéttarfélaga um þetta frumvarp. BHM, BSRB, Félag stjórnsýslufræðinga, Samkeppniseftirlitið og SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu og starfsfólk Fiskistofu lýsa t.d. þeirri skoðun að eðlilegt sé að ákvarðanir um flutning stofnana fari fyrir Alþingi til umræðu og ákvörðunar. Rökin fyrir þeirri afstöðu eru aðeins mismunandi, en að mestu þau sömu og ég rakti í ræðu minni. Samkeppniseftirlitið nefnir einnig þau rök að mikilvægt sé að verja sjálfstæði ríkisstofnana og alveg sérstaklega eftirlitsstofnana og það þurfi að líta til þess í þessu sambandi.

Í umsögn fiskistofustjóra er síðan lögð áhersla á að vel þurfi að standa að svona málum, en þar er ekki tekin afstaða til þess hvort Alþingi eigi að koma að slíkum ákvörðunum hverju sinni. Það er augljóst að í þessum umsögnum er mismikil áhersla á mismunandi sjónarmið. Auðvitað horfa stéttarfélög og stofnanir á málið út frá hagsmunum sinna félaga og vilja tryggja að öryggi þeirra og réttindi séu sem best. Það er auðvitað eðlilegt. Þar er lögð mikil áhersla á fagleg og vönduð vinnubrögð við undirbúning og töku svona ákvarðana og mjög mörgum finnst auðvitað eðlilegt og lýðræðislegt að Alþingi fjalli um svona mál.

Ég á eftir að víkja að fleiri þáttum þessa máls í síðari ræðum mínum. Þetta er veigamikið og ber að horfa til margra þátta. Það er ekki einhlítt, það eru rök með og á móti, en ég held að einhvers konar ferli sem felur í sér eins mikið samráð og mögulegt er hljóti að vera hin eðlilega niðurstaða.