144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi hið fyrra þá held ég að ég hafi orðað það þannig að Akureyringar hafi ekki haft gaman af þessari umræðu. Ég segi það ekki út í bláinn því að ég hef verið í sambandi við ýmsa þar, forustumenn í bænum o.fl. Á hinn bóginn held ég að þeir hafi tekið mjög skynsamlega og yfirvegað á þessu eftir að út í dansinn var komið. Akureyringar hafa einfaldlega sagt sem svo: Fiskistofa er að sjálfsögðu velkomin til Akureyrar. Við munum taka vel á móti henni. Við trúum því að hér sé hægt að búa vel að henni. En að öðru leyti hafa þeir forðast að dragast inn í umræður um hina neikvæðu þætti þessa máls og frábiðja sér að sjálfsögðu að bera nokkra ábyrgð á því hvernig þetta kom út gagnvart starfsfólkinu og annað í þeim dúr. Sömuleiðis eru þeir ekki í einhverjum slagsmálum eða kapphlaupi við Hafnarfjörð í þessum efnum og hafa algjörlega tekið það skýrt fram. Þetta er bara svona. Ef stjórnvöld taka þessa pólitísku ákvörðun þá er Fiskistofa velkomin til Akureyrar, það verður tekið vel á móti henni og vel að henni búið. Hún er og mun verða prýðilega staðsett þar. Ég er sammála því mati einfaldlega vegna þess að Akureyri er það öflugur bær á þessu sviði, einhver öflugasti sjávarútvegsbær landsins, með háskóla sem er sérhæfður í sjávarútvegi og kennir sjávarútvegsfræði, með talsvert öfluga starfsemi ýmissa stoðstofnana í sjávarútvegi. Þar eru Hafrannsóknastofnun og Matís og margir fleiri aðilar og Fiskistofa auðvitað þannig að það er ekki eins og það sé verið að byrja frá grunni.

Varðandi hið síðara þá er ég og hef lengi verið þeirrar skoðunar að lykillinn að því sé meðal annars sá að sveitarfélögin eða svæðin í samstarfi taki við fleiri verkefnum. Ég er kappsamur áhugamaður um að málefni aldraðra verði færð og menn heykist ekki á því þannig að þau til viðbótar við málefni fatlaðra komi út á svæðin og öll nærþjónustan verði samþætt á svæðunum og í byggðunum (Forseti hringir.) með þeim störfum, fjármunum og ábyrgð sem því fylgir.