144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt, menn hafa orðið órólegir nokkrum sinnum á þessum 20 árum sem þetta eru víst orðin, eða eru þetta orðin 25 ár? Já, þetta er aldarfjórðungur. Af og til hefur komið upp óróleiki og kvisast orðrómur um að nú standi jafnvel til að færa Skógræktina aftur til baka eða austur í Gunnarsholt eða eitthvert, kannski í tengslum við sameiningu þeirra stofnana, en ekki hefur það nú orðið enn.

Að öðru sem er eiginlega svar við aðalspurningu hv. þingmanns. Ég held í sjálfu sér að það sé síðan enn ein blindan í þessu að einblína bara á það hvar staðsetning höfuðstöðva er. Ef við erum að tala um stóra þjónustu- eða stjórnsýslustofnun sem þarf að sinna verkefnum um allt land og er að einhverju leyti með starfsemi sína um allt land, með 100–150 manns í vinnu, þá skipta höfuðstöðvar, forstjórinn og ritarinn hans og kannski nokkrir menn í viðbót ekki öllu máli. Það geta alveg verið rök fyrir því að hann sitji hér, sérstaklega ef um einhverja mikilvæga lykilstofnun er að ræða. Ég hef til dæmis ekki heyrt hugmyndir um að flytja Seðlabankann þó að hann væri vissulega velkominn í Suður-Þingeyjarsýslu því að þar hafa menn reynst kunna hvað best að reka banka, ekki satt? [Hlátur í þingsal.] Það eru auðvitað býsna góð rök fyrir því að seðlabankastjóri sitji í Reykjavík. Sama má segja um ríkisskattstjóra, ríkistollstjóra og slíka aðila. Það þýðir ekki að þungamiðja starfseminnar þurfi endilega að vera á einhverjum hæðum fyrir neðan þá. Það er alveg hægt að hugsa sér að langstærsta starfseining ríkisskattstjóra sé á Akureyri, gott ef hún er ekki að nálgast það nú þegar. (ÖS: ÁTVR …) Svo eru ýmsar aðrar stofnanir sem eðli málsins samkvæmt þurfa að sinna sínum mikilvægu verkefnum um allt land, eins og kunnugt er. Ég held að það sé eitt af því sem þarf líka að taka með í reikninginn að einblína ekki um of á það að öllu máli (Forseti hringir.) skipti hvar hinar svokölluðu höfuðstöðvar eru. Það er spurningin um störfin og þungamiðju þeirra og rekstrarins sem öllu skiptir.