144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:05]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það er þessi 1. gr. sem styrinn stendur um, það sem kallað hefur verið fiskistofuákvæðið. Nú held ég að við getum öll verið sammála um að mjög illa var staðið að þessari ákvörðun og er ráðherra að draga aðeins í land með hana, en skaðinn er að einhverju leyti skeður.

Það geta vissulega verið rök fyrir því í einhverjum tilfellum að stofnanir séu ekki endilega með lögheimili í Reykjavík. Það er hægt að reka opinberar stofnanir utan höfuðborgarsvæðisins. Mikið hefur verið talað um það, hef ég heyrt hér í dag, að það sé svo mikilvægt að hafa þetta aðgengi að stofnunum. Þá veltir maður fyrir sér: Ef það er svona mikilvægt, af hverju erum við þá ekki að tala meira um aðgengi fólks úti á landi að þessum stofnunum? Það hefur ekki hið fýsíska aðgengi, oftast þarf það þá bara að hringja. Ég hef örugglega tekið um það dæmi áður þegar ég þurfti að fá eitthvert kort frá Sjúkratryggingum, af því að ég bjó úti á landi þurfti ég að bíða í 7 til 10 daga til að fá þennan póst. Ef ég hefði átt heima í Reykjavík hefði ég getað keyrt upp eftir, labbað inn og fengið umrætt kort afhent á 5 mínútum. Þetta er mikill aðstöðumunur, mundi ég segja. Það skipti mig svo sem engu máli, en ég get séð fyrir mér að þetta geti verið mikið vandamál.

Er hv. þingmaður sammála mér um að eðlilegt sé að reyna kannski eitthvað að dreifa opinberum störfum og að veita þessa þjónustu út um allt land og ekki bara í gegnum síma? Og hvernig gerum við það þá? Er endilega nauðsynlegt að færa höfuðstöðvarnar? Nú er færslan út á land oft þannig að útibúin eru svo lögð niður og hverfa smátt og smátt; hugsunin er væntanlega sú að ef höfuðstöðvarnar eru færðar þá sé það erfiðara. Það er kannski pínu óþolandi að þurfa að hugsa svona en hvað finnst hv. þingmanni um þessi mál?