144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er það þannig eins og hér hefur komið fram í flestum ræðum að allir vilja dreifa þjónustu íslenska ríkisins sem víðast á landið eftir því sem mögulegt er, en spurningin er: Hvernig gerum við það, hvernig komumst við að niðurstöðu hvað það varðar?

Það hefur líka komið fram hér í ræðum fyrr í dag og kvöld að eitt af því sem við vorum búin að læra af hlutunum fyrir hrun var að menn voru að taka skyndiákvarðanir eða ákvarðanir voru teknar af fáum aðilum. Menn kvörtuðu mikið yfir þessu, það var talað mikið um ráðherraræði og meirihlutaræði og þetta kemur mjög vel skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og raunar einnig í niðurstöðu þingmannanefndarinnar. Meðal annars þess vegna var felld niður árið 2011 heimild um að hægt væri að færa stofnanir út á land einhliða. Það gerðist líka að fjármálaráðuneytið gerði mjög ítarlega og vandaða skýrslu um hvernig staðið skyldi að flutningi stofnunar ef slíkt kæmi til.

Það sem er óvenjulegt í fiskistofumálinu er að ákvörðunin er tekin fyrst með tilkynningu einhvers staðar á Norðausturlandi af forsætisráðherra, þannig berst það okkur í fjölmiðlum. Síðan er því fylgt eftir af viðkomandi ráðherra, þ.e. atvinnuvegaráðherra, og starfsfólkið er sett í þá stöðu að það fær að vita að það eigi að fara með Fiskistofu norður á Akureyri. Það eru engar lagalegar heimildir á bak við það, það virðist eins og menn hafi ekkert hugsað út í það og óvissan verður gríðarleg.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvað henni finnst um þessa röð atburða og hvort við séum ekki að hverfa til baka til geðþóttaákvarðana og til ráðherra- og meirihlutaræðis þar sem menn reyna með nánast skipulögðum hætti að forðast það að þingið komi að málum.