144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við tölum hér um hvað er mögulegt og hvað er skynsamlegt. Það er einmitt hluti af því sem er í reglum frá fjármálaráðuneytinu að gerðar séu greiningar varðandi starfsemina, kostnaðinn við að flytja, gerðar áætlanir og annað slíkt og þá er horft líka til mannauðsins. Þegar um sérhæfðan mannauð er að ræða eins og hjá Fiskistofu er ekki auðvelt að flytja hann í einu bretti á milli landshluta enda hefur þetta náttúrlega allt beðið alveg hrikalegt skipbrot með alvarlegum afleiðingum fyrir viðkomandi stofnun, því miður, og ekki síður fyrir okkur sem höfum viljað berjast fyrir eflingu landsbyggðarinnar vegna þess að þetta eyðileggur umræðuna um það þegar menn taka slíkar ákvarðanir.

Eitt af því sem ríkisstjórnin leggur áherslu á er að hér verði sátt og samvinna sem er náttúrlega orðið eiginlega grín miðað við stöðuna sem hefur verið undanfarna daga. Það er líka talað um að það þurfi festu. Mig langar að heyra hvort hv. þingmaður telji þessar aðgerðir líklegar til þess að leiða til sátta og samvinnu og festu í íslensku stjórnkerfi.