144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni efnisríka ræðu. Skoðanir hennar og mínar fara nú nokkuð saman þegar kemur að þeim þáttum sem hún rakti fyrst í ræðu sinni, um skipulag Stjórnarráðsins, flutning stofnana og flutning starfsmanna innan Stjórnarráðsins. Ég staðnæmist aðeins við það sem þingmaðurinn nefnir um siðanefndina, sem ætlunin er að leggja niður, og líkinguna sem hún tók við fagmennskuna og það að svo virtist sem ráðuneytið hefði allt eins getað lagt af lögfræðideildina í forsætisráðuneytinu og ætlað starfsmönnum þar að sinna þeim málum eftir brjóstvitinu einu saman.

Ég vildi þess vegna spyrja þingmanninn, vegna þess að hún hefur nokkuð velt þessu máli fyrir sér: Geta ástæður þessarar tillögu falist í því að þarna sé um að ræða að ríkisstjórnin óttist í sjálfu sér sjálfstæða sérfræðiþekkingu á þessu sviði og vilji ekki hafa nefnd sem hafi sjálfstætt valdsvið innan ramma regluverks Stjórnarráðsins og óttist það? Eða telur þingmaðurinn að aðrar ástæður liggi þarna að baki? Getur verið að það sé afstaða stjórnvalda að í því felist ógn að þarna sé starfandi siðanefnd sem geti lagt mat á gjörðir ráðherra á hverjum tíma?