144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú fer að þykkna nokkuð súpan, því að þegar maður horfir á þessi ummæli úr greinargerðinni með frumvarpinu og ber þau saman við álit meiri hluta nefndarinnar þá verður þetta eiginlega enn sérkennilegra. Meiri hluti nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir nefndinni kom fram að í ljósi reynslu af starfi nefndarinnar sé ekki lengur talin þörf á sérstakri lögbundinni nefnd til að sinna þessu hlutverki þótt mikilvægt sé að því verði áfram sinnt, m.a. til að tryggja að siðareglur þróist áfram eins og eðlilegt er. Meiri hlutinn tekur undir það og telur breytinguna eðlilega.“

Hvernig á að sinna verkefninu ef enginn á að sinna því?

Í framhaldinu segir svo meiri hlutinn, með leyfi forseta:

„Fram kom að í rafrænni viðhorfskönnun hefði komið fram að langflestir starfsmenn teldu siðareglur mikilvægan þátt í starfi sínu en að skort hefði fræðslu og eftirfylgni með reglunum. Meiri hlutinn telur að siðareglur, umræða og vinna með þær eigi að vera virkur þáttur í starfi ráðuneyta og stofnana.“

Þetta er nú eiginlega alveg óskiljanlegt. Þetta er eins og að segja að það eigi að vera mötuneyti í öllum ráðuneytum og til þess að tryggja að góður og heilnæmur matur sé í boði sé best að loka öllum mötuneytum í ráðuneytunum, segja upp öllu því starfsfólki sem sjái um að búa til matinn.

Ég vil spyrja hv. þingmann, vegna þess að síðan er enga breytingartillögu að finna um þessi mál í áliti meiri hlutans: Með hvaða hætti á þá að vera hægt að sinna verkefninu ef enginn á að sinna því, hvorki samkvæmt fjárveitingum, því að ekki er gert ráð fyrir því í upphaflegu frumvarpi að sérstakir starfsmenn sinni þessu, heldur á það að vera aukageta hjá þá annars léttlestuðum starfsmönnum forsætisráðuneytisins að sinna þessu. Það virðist þá vera þannig að menn þar geti bætt við þessu verkefni, sem eiga þó að áliti meiri hluta nefndarinnar að vera grundvallaratriði í starfi allra ráðuneyta.