144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er rétt, sem fram kemur hér hjá þingmönnum, að það hellist yfir mann hálfgert tilgangsleysi, eins og sagt hefur verið. Við erum að ræða hér mál sem var búið til til að bjarga í horn einhverju klúðri þegar menn ætluðu að flytja stofnun út á land sem þeir höfðu ekki heimild fyrir. Nú eru þeir hættir við að flytja þessa stofnun en samt erum við að ræða þetta mál og í farteskinu eru einhverjir laumufarþegar sem ég efast um að séu mjög góðir fyrir Stjórnarráðið eða okkur að samþykkja ef til þess kæmi. Ég átta mig ekki alveg á hvað menn ætla sér.

En okkur hefur verið sagt að það séu mjög áríðandi mál sem þurfi að koma hingað inn í þingið. Þess vegna förum við fram úr starfsáætlun og mig langar til að spyrja hvort forseti hafi einhverja hugmynd um hvenær þessi mál komi fyrir þingið, þá til dæmis stöðugleikaskattur, gjaldeyrishöft, eða hvað það er nú kallað, og húsnæðisfrumvörp.

(Forseti (SJS): Forseti, sem nú er á stóli, hefur litlar upplýsingar fram að færa um þetta efni, en heyrir hvert forvitni þingmanna beinist.)