144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:20]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég hef setið sem áheyrnarfulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og er samþykkt nefndaráliti minni hlutans. Það er margt áhugavert í þessu máli. Ég held að sumt geti verið til bóta, en hér eru greinar sem ég held að nauðsynlegt sé að ræða. Það er auðvitað fyrst en ekki síðast 1. gr., fiskistofuákvæðið, sem maður rekur augun í. Því er haldið fram að þetta ákvæði hafi fallið út úr lögunum 2011 og þar sem ekkert hafi verið rætt um það í greinargerðinni þá er eins og gefið í skyn að það hafi bara verið einhver mistök og nú sé verið leiðrétta mistökin sem voru gerð 2011.

Ég verð að taka undir það sem hér hefur komið fram, ég held að þetta hafi ekki verið nein mistök heldur þyki almennt eðlilegt að svona stór mál fari í gegnum Alþingi. Við höfum dæmi um að þegar verið er að setja á fót nýjar stofnanir þá er getið um það í lögum hvar þær skuli vera og í einhverjum tilfellum hafa þær verið staðsettar úti á landi, það er þá í rauninni gert þannig að Alþingi samþykkir lögin. Mér finnst það miklu eðlilegra en að fela ráðherra þetta vald. Ég verð að segja að ég skil ekki alveg hvernig Alþingi á að grípa inn í slíkt eins og talað er um í greinargerðinni þar sem segir, með leyfi forseta:

„Almenn heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana breytir því ekki að Alþingi getur ávallt með lögum ákveðið hvar stofnun skuli staðsett og fellur þá heimild ráðherra niður eins og mælt er fyrir um í ákvæðinu.“

Ég skil þetta þannig að ef verið er að tala um nýja stofnun og getið sé um það í lögum hvar hún eigi að vera þá gildi það. En segjum að ráðherra hefði haldið þessu máli með Fiskistofu til streitu, með hvaða hætti hefði Alþingi átt að bregðast við því? Leggja fram nýtt frumvarp? (Gripið fram í.) Það er eitthvað sem mér finnst að við þurfum að fá svör við.

Ég vil þó taka það fram, mér finnst rétt að gera það í þessari umræðu, að mér finnst sjálfsagt að dreifa opinberum störfum um landið eftir því sem það er hægt og þar sem það er skynsamlegt vegna þess að, enn og einu sinni, opinber störf eru takmörkuð gæði. Við tölum mikið um að það sé svo mikilvægt að þjónusta sé nálægt íbúum. Hún þarf þá væntanlega að vera nálægt íbúum á landsbyggðinni. Einnig er viðkvæðið að það sé eðlilegt að þar sem flestir búi sé mesta þjónustan, ekkert óeðlilegt við að þar séu flestir opinberir starfsmenn. Ég vil alveg eins snúa þessu við og segja að það sé ekkert óeðlilegt að fjölgunin verði mest þar sem þjónustan er best. Segjum sem svo að við tækjum Seðlabankann og settum í Eyjafjarðarsveit, svo tækjum við kannski fjögur ráðuneyti þar sem er mikið af vel launuðum sérfræðistörfum og settum þau á Akureyri, svo tækjum við einhverjar svolítið öflugar opinberar stofnanir og settum Dalvík. Eftir 30 ár þá yrði fólksfjölgun og meira umleikis á Akureyri ef þetta yrði gert. Þetta hangir saman. Ég er ekki að tala fyrir þessu nákvæmlega, en það er ekkert skrýtið að það verði sogkraftur á höfuðborgarsvæðið þar sem þjónustan er jú kannski að mörgu leyti betri, en ekki bara það heldur eru miklu meiri möguleikar þar á góðum opinberum störfum, sérfræðistörfum. Sum menntun getur verið af því tagi að auðveldara er að fá störf hjá hinu opinbera en á almennum markaði, það geta verið störf fyrir viðskiptafræðinga, jafnvel lögfræðinga, stjórnsýslufræðinga og þar fram eftir götunum.

Nú er það ekki þannig að Akureyri sé endilega illa leikin í þessum efnum, en hugmyndin um Fiskistofu og flutning höfuðstöðva Fiskistofu norður er alls ekki ný af nálinni. Árið 2004 var gerð skýrsla sem Eyþing lét gera þar sem var fjallað um þennan möguleika og hvernig ætti að standa að slíkum flutningi. Þar er gert ráð fyrir að áfram verði útibú í Reykjavík og annars staðar á landinu, það er ekki verið að tala um að öll starfsemin fari út á land. Þetta voru mjög skynsamlegar tillögur þar sem var miðað við að eðlileg starfsmannavelta væri notuð til þess að fækka starfsmönnum á höfuðborgarsvæðinu og fjölga þeim á Akureyri í þessu tilfelli.

Mér fannst það hvernig ráðherra fór fram í þessu máli, hvernig þetta var tilkynnt og hvernig var staðið að þessu öllu saman alveg forkastanlegt. Ég hefði aldrei getað varið þá ákvörðun, vegna þess að vinnubrögðin verða að vera vönduð í svona málum, alveg sérstaklega. Það þarf að gera þetta í eins mikilli sátt og mögulegt er. Mér finnst þetta allt vera svolítil synd því ef þetta hefði verið gert vel þá hefði ég verið svo innilega til í að taka þessa umræðu og „taka slaginn“ vegna þess að mér finnst við þurfa að taka þessa umræðu og við eigum ekki að tala alltaf eins og ekki sé hægt að manna sum störf úti á landi af því að þar séu engir sérfræðingar og enginn vilji búa þar og þar fram eftir götunum. Það er ekki þannig.

Mér fannst það áhugaverð frétt á Vísi í apríl þar sem sagt var frá ársfundi Byggðastofnunar. Þar var búið að taka saman tölur um ríkisstörf og voru stöðugildin um 2.500 um áramótin 2013/2014. Í þessum tölum kemur fram að höfuðborgarsvæðið er hið eina á landinu sem er með hærra hlutfall opinberra starfa en hlutfall íbúafjölda landsins. Það eru sem sagt 72% opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu, en 64% af íbúafjöldanum. Síðan kemur Norðurland vestra sem er með 2,1% stöðugildanna, en 2,2% íbúafjöldans. Þetta er áhugavert þótt þetta segi auðvitað ekkert allt, en mér finnst áhugavert að sjá þessar tölur og skoða þetta. Til dæmis á Austurlandi eru 2,4% stöðugildanna, en 2,8% íbúafjöldans.

Nú er auðvitað ekkert óeðlilegt við að það séu mörg störf á höfuðborgarsvæðinu, en mér fannst mjög gott sumt af því sem var t.d. gert á síðasta kjörtímabili sem sneri einmitt að því að reyna að búa til störf án staðsetningar. Umhverfisstofnun hefur staðið sig sérstaklega vel í því, finnst mér, og reyndar margar stofnanir, en það er óþægilegt að ekki virðist vera nein stefna í þessum málum, það fer bara eftir hverri stofnun og hverjum forstöðumanni fyrir sig hvernig er tekið á þessu. En mér finnst það sem ég heyrt af Umhverfisstofnun til fyrirmyndar.

Þannig að það sé skýrt þá er ég á móti 1. gr. og ég mundi vilja að hún yrði felld út úr frumvarpinu og að svona breytingar færu í gegnum Alþingi og fengju þá umræðu sem þörf væri á.

B-liður 10. gr. snertir breytingar á því hvernig má færa fólk á milli úr ráðuneytum í stofnanir og væntanlega úr stofnunum í ráðuneyti. Ég var í andsvari fyrr í dag að tala um Stjórnarráðið og að ég sæi það fyrir mér sem einn vinnustað, að fólk yrði bara ráðið inn í Stjórnarráðið. Í dag er reyndar ráðið inn í ráðuneyti, en hins vegar kom inn ákvæði 2011 sem gerði starfsmönnum kleift að flytjast á milli ráðuneyta með samþykki ráðherra og starfsmannsins sjálfs, ég býst við að það hafi verið hluti af þeim breytingum sem farið var í á síðasta kjörtímabili þar sem m.a. var fækkað ráðuneytum sem mér fannst ágætt skref. Í athugasemdum um b-lið 10. gr. segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Nokkuð hefur verið um það að starfsfólk hafi flust á milli ráðuneyta bæði varanlega og tímabundið á síðustu árum á grundvelli þeirrar lagaheimildar sem öðlaðist gildi árið 2011 og hefur reynslan af þeirri framkvæmd verið góð og hnökralaus. Hins vegar hefur skort sambærilega lagaheimild til flutnings starfsfólks á milli stofnana og ráðuneyta sem og á milli tveggja stofnana.“

Nú verð ég að viðurkenna að ég hefði átt að fatta það fyrr að ég hefði viljað fá rökstuðning fyrir þessu. Hér segir um það hversu margir hafa verið fluttir að „nokkuð hafi verið um það“. Hefur þetta þá gerst þrisvar eða hefur það gerst oftar? Ég hefði líka viljað fá rökstuðning fyrir þessari setningu „að reynslan hafi verið góð og hnökralaus“. Auðvitað er ég ekki að segja að hér sé verið að ljúga í þessari greinargerð, en það væri gott að hafa einhverjar tölur. Ég er ekki endilega andvíg þessari grein. Ég held að það sé gott að hafa þennan sveigjanleika, ég er þá að hugsa um fyrir starfsfólkið líka, en mér finnst það kannski eitt að færa fólk milli ráðuneyta, það er stærra skref að færa það milli stofnana og ráðuneyta. Ef þetta verður samþykkt þá finnst mér mjög mikilvægt að fylgst verði mjög vel með því hvaða áhrif þessi breyting hefur, hvort starfsfólk færist á milli og hvaða áhrif það hafi og hvort það sé sátt við þær breytingar, þ.e. hvort þetta gefist vel. En ég er ekki algjörlega andvíg þessu. Mér finnst þó eins og kemur fram í nefndarálitinu mikilvægt að það hefði mátt reyna að tryggja meira samráð við stéttarfélögin sem um ræðir, starfsfólkið sjálft, þannig að það væri með í þessu og sæi þau tækifæri sem er lýst í greinargerð.

Hér hefur verið rætt aðeins um 8. gr., um siðferðileg viðmið og hina svonefndu samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna sem mér finnst nú kannski ekki gott nafn á fyrirbærið. Ég get tekið undir það sem hefur komið fram að mér finnst þetta svolítið í lausu lofti. Nefndin verði sem sagt lögð niður og hlutverkinu verði betur sinnt innan ráðuneytisins í samráði við eftirlitsstofnanir og aðra. Það er vísað hér í umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun þannig að í raun er talað um að mjög mikilvægt sé að tryggja áfram að þessi vinna sé í gangi, en þó finnst mér ekki koma skýrt fram með hvaða hætti verði tryggt að hún verði það. Það er forsætisráðherra sem er ábyrgur. Ef ég á að segja alveg eins og er þá fannst mér viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við áliti Ríkisendurskoðunar sem varðaði styrkveitingar forsætisráðherra vera með þeim hætti að hann bæri ekki mikla virðingu fyrir þeirri stofnun. Auðvitað á maður ekki að hugsa um þetta út frá þeim persónum sem eru akkúrat núna á sviðinu, en mér finnst þetta ekki sannfærandi svo ég orði það þannig. Þetta er eitthvað sem hefði þurft að skoða betur og ég tek undir það sem segir í minnihlutaálitinu, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn hefur um þetta ríkar efasemdir og vísar til þess að fyrir nefndinni kom fram að rökstuðningur í frumvarpinu væri takmarkaður og ekki væri ljóst hver ætlunin væri með breytingunni. Minni hlutinn telur því að þennan þátt málsins þurfi að skoða mun betur.“

Annað sem ég velti fyrir mér í þessu máli en er kannski of seint að fá svör við núna, er hvort einhver kostnaður hafi verið af samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið við stjórnsýsluna. Ef þetta er nefnd sem er til taks, ekki fólk á fullum launum við að gera ekki neitt heldur bara nefnd sem fær greitt fyrir þau verkefni sem hún fær eða hvernig sem það er, þá sé ég ekki af hverju hún má ekki vera áfram starfandi. Ég hefði viljað fá upplýsingar um það.

Að öðru leyti finnst mér ekki vera stórkostlegar breytingar í frumvarpinu og sumt er til bóta held ég hreinlega. En ég get tekið undir að það eru mörg stærri mál sem bíða, þannig að við ræðum kannski mál sem í raun skiptir ekki öllu og sumt í því er beinlínis ekki til bóta. Það er áhyggjuefni.