144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:36]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góðan punkt. Þetta var einmitt eitt af því sem var rætt vegna þess að auglýsingaskyldan er mjög mikilvæg til að tryggja öllum aðgang og fá vonandi hæfasta fólkið til starfa. Bent hefur verið á að á móti komi að staðan sem losnar verði auglýst. En ég sé eiginlega bæði kosti og galla við þetta, bæði að menn geti misnotað þetta með því að koma einhverjum fyrir einhvers staðar án þess að þurfa að auglýsa starfið, en líka að þessi sveigjanleiki geti nýst, ef ég gef mér að það séu nú ekki alltaf annarlegir hagsmuni að baki heldur séu menn að reyna að stilla hlutunum þannig upp að fólk nýtist sem best. Starfsmaður sem nýtist kannski ekki endilega á ákveðnum stað eða hefur mjög mikla sérfræðiþekkingu á einhverju ákveðnu máli geti farið yfir til annarrar stofnunar eða færst milli ráðuneyta vegna þess að sérfræðiþekking hans gæti nýst þar. Þannig að mér finnst bæði kostir og gallar við þetta.