144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:39]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mundi helst ekki vilja tala um að flytja störf heldur að þegar verið er að auglýsa eftir nýju fólki þá sé möguleiki að starfa víðs vegar um landið eins og Umhverfisstofnun gerir. Það þurfi ekki endilega að segja: Við erum með manneskju hérna í Reykjavík og við ætlum að færa hana með valdi eitthvert annað. Það hefur alveg sýnt sig að fólk sækir um, ég þekki eiginlega engin dæmi um það fyrir utan kannski sérfræðilækna að fólk úti á landi hafi ekki sótt um störf þegar þau hafa verið auglýst. En á sama tíma og ráðherra var að þjösnast í þessu máli til að færa 20, 30 manns norður fóru þrjú störf Isavia á Akureyrarflugvelli í burtu. Matís er farið frá Akureyri. Hafró er búið að minnka niður í eiginlega ekki neitt. Útibúi umboðsmanns skuldara var lokað. Það heyrist ekkert mikið um þau störf sem svona leka smátt og smátt af landsbyggðinni án þess að nokkur hreyfi legg né lið.

Til að svara hv. þingmanni þá held ég að við þurfum meiri stefnu um þessi mál og ég horfi á Umhverfisstofnun, þar finnst mér hafa tekist vel til. Þeir eru með starfsstöðvar. Þú getur unnið á hvaða starfsstöð sem er ef þú vinnur hjá stofnuninni. Mér finnst það til fyrirmyndar.