144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:47]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég ætla að kalla þetta héðan í frá SSVS, þetta fyrirbæri sem á að leggja niður. Það er ekki gott að gera það vegna þess að við sjáum það bara í öllum skoðanakönnunum að það er ekki mikið traust á stjórnmálamönnum, kannski er traustið á stjórnsýslunni aðeins meira, en það er gríðarlega mikilvægt að byggja upp traust á stjórnsýslunni, við sáum það eftir hrun. Mér sýnist líka ekkert veita af því að við séum með siðareglur og þessi viðmið á hreinu. Mér finnst of mikið í gangi bæði hjá stjórnvöldum og í þjóðfélaginu sem gefur til kynna að við séum ekki alveg með það á hreinu hvað siðareglur séu eða hvað sé siðlegt og hvað ekki. Ég verð að segja að ég átta mig engan veginn á því hvernig þessu verður sinnt. Mér sýnist að hæstv. forsætisráðherra ætli að taka það að sér.