144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:49]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég uppgötvaði það eiginlega bara núna í þessari umræðu að það hefði verið gáfulegt að spyrja t.d. út í kostnaðinn við þessa nefnd, hvort það væri ástæðan. Og þótt það væri smákostnaður þá ætti það ekki að skipta öllu máli. Ég sé svolítið eftir að hafa ekki spurt um það, svona er maður nú ekki nógu duglegur að skoða alla anga á öllum málum, því ég mundi vilja vita þetta. Er kostnaðurinn ástæðan? Við vitum að ríkisstjórnin er, og segir það bara opinskátt, að draga saman seglin. Eins og hv. þingmaður bendir á erum við líka með veik ráðuneyti, það er búið að skera mikið niður í stjórnsýslunni. Samt ætla þau að taka á sig þetta verkefni og ýmis verkefni sem við leggjum á þau. Við erum að fara að samþykkja lög um opinber fjármál á þessu ári. Það (Forseti hringir.) eru gríðarlega mörg verkefni sem stjórnsýslan þarf að sinna. Þannig að ég hefði haldið að hjálp utan frá hvað þetta varðaði væri kærkomin.