144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað þannig að ein af sprengjum ríkisstjórnarinnar hefur verið flutningurinn á Fiskistofu sem kom svolítið eins og þruma úr heiðskíru lofti án þess að fyrir lægi góður undirbúningur og slíkt. Ég ætla ekkert nánar út í það hér, en umræðan um þetta frumvarp hefur mótast mjög af því máli. Ef við hugsum um hvað það er skammt liðið frá hruni og að nú eigi að hverfa til baka frá þeim umbótum sem gerðar voru á lögum um Stjórnarráð Íslands, meðal annars siðareglum þar að lútandi og sérstakri nefnd sem veitti ráðgjöf, veldur það miklum áhyggjum. Það sem veldur mér líka áhyggjum er að umsagnirnar sem berast um málið eru mjög mikið um staðsetningu stofnana, minna horft á (Forseti hringir.) siðareglurnar og nánast ekkert. Ég vil spyrja: Að hversu miklu leyti voru siðareglurnar (Forseti hringir.) eða siðaráðið rætt í nefndinni við afgreiðslu málsins?