144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:55]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það væri mjög gott ef öll mál fengju segjum fjórar umræður vegna þess að það er varla þannig að hingað komi mál þar sem þessar umræður skila ekki einhverjum punktum sem okkur þykir vert að skoða nánar. En ég held að með þetta eins og kannski aðrar greinar frumvarpsins, líka þá grein sem er um það að færa til starfsfólk, ef frumvarpið verður samþykkt svona, þá sé eftirlitshlutverkið sem við höfum hér á Alþingi mjög mikilvægt. Mér finnst við stundum gleyma því hlutverki okkar þegar búið er að samþykkja einhver lög sem við höfum jafnvel gagnrýnt mjög mikið, við fylgjumst svo ekki með því hvernig framkvæmdin er og bregðumst við með aðhaldi, fyrirspurnum og öðru. Þannig að ef þetta verður samþykkt held ég að það sé mikilvægt að fylgjast með og sinna einmitt því aðhaldi og spyrja: Hvernig ætlið þið að sinna þessum málum? Hvernig ætlar hæstv. forsætisráðherra að halda utan um þetta og halda áfram þessu mikilvæga verkefni sem SSVS-nefndin hefur sinnt og allir eru sammála um að hafi verið mikilvægt?