144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:15]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stórt spurt og fyrst ætla ég að fjalla um vöxt og viðgang Akureyrar. Vissulega hefur Háskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Akureyri haft veruleg áhrif en það sem skiptir meginmáli á Akureyri, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, er starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja sem þar eru.

Ég get ekki litið á það sem ásættanlega lausn að flytja stofnun í bútum, þá eins gott að kála henni bara í eitt skipti fyrir öll, þeirri stofnun. Það er spurning hvað Alþingi á að framselja til framkvæmdarvaldsins á einu bretti. Það getur vel verið að framkvæmdarvaldið geti farið býsna frjálslega með miklu framsali. Um það vil ég ekki hafa fleiri orð. En ég lít ekki á það sem ásættanlega lausn að flytja stofnunina í einhverjum bútum og framlengja dauðastríð hennar ef það er ætlunin.