144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:22]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef sagt að þegar siðareglur eru annars vegar skipti smíðisvinnan meira máli en smíðisgripurinn. Það er þetta sem reynt er að stuðla að með núgildandi lögum hvað þetta snertir. Kallaðir eru til aðilar frá stéttarfélögunum, frá stjórnendum innan stjórnsýslunnar og frá háskólasamfélaginu sem hafa sérhæft sig í umræðu um þessi mál til að leggja sameiginlega á ráðin um það hvernig við getum þróað með okkur heilbrigða skynsemi, því að í lögunum er meðal annars kveðið á um að það skuli leitað fanga til að örva umræðu í stjórnsýslunni um þessi efni.