144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég undirstriki að það eru þrjár spurningar sem ég vildi beina til hv. þingmanns. Hann fjallaði nokkuð um siðareglur og ég áttaði mig ekki alveg á afstöðu þingmannsins í þeim efnum og vildi spyrja hann hvort honum þyki það góð hugmynd eða vond að hæstv. forsætisráðherra taki að sér yfirumsjón með siðareglum í stjórnsýslunni eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Þingmaðurinn sagði að frumvarp þetta hefði ekki komið fram nema vegna þess að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi hugsað upphátt. Það þarf nú aðeins meira til að stjórnarfrumvörp komi fram á Alþingi Íslendinga. Það þarf samþykki ríkisstjórnarinnar fyrir framlagningu málsins sem stjórnarfrumvarps og þar með ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ég geri ráð fyrir því að ráðherrar þingmannsins hafi staðið fyrir flutningi málsins. Það þarf umfjöllun í þingflokki stjórnarflokkanna, þar með þingflokki Sjálfstæðisflokksins og samþykki þar fyrir framlagningu.

Ég skil það þannig að hv. þingmaður hafi lagst gegn því að málið væri afgreitt til þings í umfjöllun í þingflokknum þar, en vildi inna eftir því hvort hann hafi verið einn um þau sjónarmið eða hvort fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi goldið varhuga við þeim hugmyndum þegar leitað var heimildar þingflokksins til framlagningar á málinu.

Í þriðja lagi er það forgangsröðun verkefna. Telur þingmaðurinn að á þessum tímapunkti í þinghaldinu sé þetta það þingmál frá stjórnarflokkunum eða einstaka þingmönnum sem mesta áherslu sé vert að leggja á að ná að afgreiða hér í lokin, eða telur hann önnur mál, og gæti hann þá nefnt einhver, eiga brýnna erindi á dagskrána en þetta?