144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:26]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar spyr stórt og mikið varðandi umsjón með siðareglum. Ég tel að einn maður í Stjórnarráði Íslands geti ekki haft umsjón með siðareglum. Ég tel ósköp einfaldlega og hef látið þá skoðun oft í ljós að menn telji að öll mál séu leyst eftir að siðareglur hafi verið settar. En ég tel að svo sé ekki. Mannleg hegðun leysist ekki með því að færa í letur. Við höfum hér ýmsa lagabálka sem eru siðabálkar. Við skulum bara virða þá. Þeir hafa verið færir í letur og hafa fengið sína umfjöllun. Þetta er mitt svar við því.

Hvað gerist á þingflokksfundum í Sjálfstæðisflokknum ætla ég ekki að fjalla um hér og hver afstaða einstakra þingmanna var þar, ég fjalla ekki um það hér.

Um forgangsröðun verkefna vil ég segja að verkefni þokast lítt áfram þannig að ég fæ ekki séð að þetta mál hafi gengið hraðar en önnur sem hér hafa verið til umræðu á undanförnum kvöldum og nóttum. Ég ætla því ekkert að dæma um það hvort þetta er rétt eða röng forgangsröðun verkefna. Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.