144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það þýðir auðvitað ekki að hafa það sem svona eitthvert leyndó hvort þingflokkur Sjálfstæðisflokksins tók þátt heill og óskiptur í aðförinni að Fiskistofu eða hvort þar voru einhverjir sem andæfðu því máli. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni málflutning hans eftir að umræðan kom hér inn í þingið. Ég held að það séu eðlilegar opinberar upplýsingar að veita hvort hann hafi verið einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins til að vara við þeim áformum og tala gegn þeim og hvort allir hinir hafi lagst á sveif með ráðherrum Sjálfstæðisflokksins í því að fara með þessum hætti gegn Fiskistofu.

Um dagskrána vil ég síðan almennt segja að það fer eftir því hvaða mál eru á dagskrá hversu hratt þau ganga fram, það höfum við séð á undanförnum dögum. (Forseti hringir.) Þetta mál held ég að sé algjör þarfleysa.