144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:56]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að spyrja þingmanninn aðeins um þá þætti frumvarpsins sem varða hreyfanleika starfsmanna innan stjórnsýslunnar, og þá kannski fyrst og fremst það sem lýtur að umsögnum sem koma frá Bandalagi háskólamanna og BSRB í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í samskiptum háskólamanna við ríkisvaldið akkúrat núna og þeirrar staðreyndar að í umsögnum umræddra bandalaga kemur fram, með leyfi forseta, frá Bandalagi háskólamanna:

„Með vísan til alls ofangreind leggst BHM alfarið gegn frumvarpi þessu, og ítrekar að sá valdatilflutningur sem felst í frumvarpinu sé í miklu ósamræmi við þau viðhorf sem uppi hafa verið í samfélaginu á síðustu árum um að efla beri löggjafarvaldið og Alþingi.“

BSRB segir, með leyfi forseta:

„BSRB leggst því alfarið gegn tillögðum breytingum á lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, varðandi valdheimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana sem undir hann heyra og lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um almenna heimild til að flytja starfsmenn ríkisins til í starfi og komast þannig undan auglýsingaskyldu á lausum störfum.“

Hér er um að ræða umfjöllun þessara tveggja stóru bandalaga opinberra starfsmanna, annars vegar BHM og hins vegar BSRB, að því er varðar þennan tiltekna þátt. Meiri hlutinn kemst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að styðja frumvarpið eigi að síður. Nefndarálit meiri hluta er lagt fram 5. maí 2015 í miðri verkfallshrinu félaga í BHM. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvers konar framlag hann telji þetta nefndarálit og þetta dagskrármál vera inn í yfirstandandi kjaraviðræður við háskólamenn.