144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:35]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Forseti. Ég tel, svo að maður komi nú hæstv. sjávarútvegsráðherra til varnar, að hans meginmistök í þessu máli hafi verið þau að taka í fangið ákvörðun sem hæstv. forsætisráðherra tilkynnir í fjölmiðlum og í fljótfærni og af hvatvísi og án þess að hafa íhugað málið nægilega vel. Þau eru orðin býsna mörg slík málin þar sem hæstv. forsætisráðherra tekur sér vald til að ákveða alls konar hluti sem hann heldur að hann geti ákveðið eða heldur að hann eigi að ákveða, hvort sem það er úthlutun styrkja eða tilfærsla á umdæmamörkum lögreglu eða staðsetning stofnana. Það sem hæstv. sjávarútvegsráðherra gerist sekur um í þessu máli, og varaformaður Framsóknarflokksins, er að reyna að gera að pólitískum veruleika yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra. Hann hefur síðan viðurkennt að það hafi verið mistök og enginn geti flúið það að læra af mistökum sínum.