144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann sérstaklega um VI. kafla í lögum um Stjórnarráðið, um siðferðisleg viðmið í starfsemi Stjórnarráðs Íslands og breytingarnar sem frumvarpið mun hafa í för með sér.

Í 24. gr., sem verður óbreytt, segir að forsætisráðherra staðfesti siðareglur fyrir starfsmenn Stjórnarráðs Íslands en jafnframt segir í 2. mgr. að ríkisstjórnin samþykki siðareglur fyrir ráðherra. Ég tók eftir því í umræðunni um þetta efni fyrir einni, tveimur vikum að þegar forsætisráðherra var spurður um þessa hluti svaraði hann á þá leið: „Já, þessar siðareglur eru svona einhvern veginn til viðmiðunar.“ Mér líst því ekkert mjög vel á það þegar ég horfi síðan á 25. gr. laganna sem á að gjörbreyta á þann hátt að hún verður einmitt þannig að reglurnar verða „svona einhvern veginn til viðmiðunar“. En markmiðið með 25. gr. eins og hún er núna og eins og hún var samþykkt á síðasta kjörtímabili er að vera til aðhalds. Markmiðið með þessu er náttúrlega að minnka spillingu og veita valdhöfum meira aðhald, en þar segir að ráðherra skipi samhæfingarnefnd til þriggja ára í senn. Í henni sitja sjö menn, formaður er án tilnefningar, þar er fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana, fulltrúi ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins, tveir fulltrúar Samtaka ríkisstarfsmanna og svo eru tveir á grundvelli sérþekkingar í stjórnsýslu og siðfræðilegum málefnum.

Hvað á þessi sjö manna stjórn að gera? Hún á að veita ráðleggingar vegna hagsmunaárekstra og spillingar, veita umsögn um drög að siðareglum og ráðgjöf varðandi þessa þætti, stunda upplýsingaöflun, fræðirannsóknir. Bregðast á við með samhæfðum hætti við ábendingum um spillingu o.s.frv., taka þátt í samstarfi við félagasamtök, stofnanir og embætti hér á landi og erlendis sem vinna gegn spillingu í opinbera geiranum o.s.frv. Þetta á svo allt saman að fara út í það að forsætisráðuneytið gefi stjórnvöldum ráð um túlkun á siðareglunum og standi fyrir fræðslu innan Stjórnarráðsins og fylgist svo með þangað til þeir hafa náð tilgangi sínum. Það er allt og sumt. Öll 25. gr. dettur út og þetta á að sitja eftir. Ég vil bara fá að heyra viðbrögð hv. þingmanns við því.