144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega miðnæturræðu og athyglisverð sjónarmið. Ég tók eftir því að þingmaðurinn vildi undirstrika það að hún teldi koma til greina að flytja opinberar stofnanir út á land og ég held að það geti margir verið henni sammála um það. Hún þekkir auðvitað sérstaklega vel eigið kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, og ég vildi inna hana eftir afstöðu hennar til þeirra hugmynda sem hafa verið kynntar af einhverri Skagafjarðarnefnd, held ég, um að flytja m.a. Landhelgisgæsluna og Rarik á Sauðárkrók, ef ég kann þetta rétt, og hvort hún sjái fyrir sér tilteknar stofnanir sem ættu betur heima vestur á fjörðum eða á Vesturlandinu, í Vesturlandskjördæmi gamla, hvort það eru einhverjar stofnanir öðrum fremur, annaðhvort tilteknar stofnanir eða af tiltekinni gerð sem hún telur að sé hægt að flytja með slíkum hætti eða hvaða hugmyndir hún hefur í þessu efni.