144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

störf þingsins.

[10:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp út af kjörum 66.000 lífeyrisþega sem búa á Íslandi og vil lýsa yfir áhyggjum yfir því að því sé ekki afdráttarlaust lýst yfir að lífeyrisþegar muni njóta sömu hækkana og launþegar á vinnumarkaði. Bæði Landssamband eldri borgara sem og Öryrkjabandalag Íslands hafa hvatt stjórnvöld til að tryggja annars vegar öryrkjum sömu hækkun og lágmarkslaunin og hins vegar hefur Landssamband eldri borgara hvatt til þess að endurskoðun almannatrygginga verði lokið og að eldri borgarar njóti sömu kjara og aðrir á vinnumarkaði. Bæði samböndin ítreka að samkvæmt lögum um almannatryggingar eiga almannatryggingar að breytast í takt við launaþróun en þó þannig að þær hækki ekki minna en verðlag.

Það er auðvelt að túlka þessa grein þó að hún sé í raun skýr. Ég óska eftir því að lífeyrisþegar njóti sömu hækkana og aðrir. Ég mun beita mér fyrir því, því að það er ekki hægt að við skipum lífeyrisþegum skör neðar og tökum beinlínis ákvörðun um það hér á Alþingi að auka ójöfnuð með því að láta þá ekki njóta sömu hækkana.

Á sama tíma sjáum við að boðaðar skattalækkanir munu nánast ekkert gagnast stórum hluta þessa hóps, að í nýju húsnæðisbótafrumvarpi virðist gert ráð fyrir því að tekjur lífeyrisþega úr almannatryggingum verði teknar inn þegar verið er að skerða bætur, sem er nýmæli og mun koma niður á þeim, auk þess sem hækkandi greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu kemur mjög illa niður á þessum hópi. (Forseti hringir.) Ég höfða til réttlætiskenndar þingmanna og hvet til þess að (Forseti hringir.) við tryggjum að þessir hópar njóti sömu kjaraleiðréttinga og aðrir hópar í samfélaginu.