144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

störf þingsins.

[10:08]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku ráðstafanir í tengslum við kjarasamninga. Aðgerðirnar eru í 11 liðum og lúta að ýmsum sviðum skatta-, velferðar- og húsnæðismála sem og úrbótum á sviði hagstjórnar og opinberra fjármála.

Ég vil sérstaklega fjalla um aðgerðir á húsnæðismarkaði í samvinnu við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins. Þannig verði stuðlað að fjölgun ódýrari og hagkvæmari íbúða með því markmiði að tryggja tekjulágum fjölskyldum húsnæði til lengri tíma og ráðist í átak um byggingu 2.300 félagslegra íbúða á tímabilinu 2016–2019.

Það hefur verið skortur á húsnæði á markaði í talsverðan tíma, sem hefur þær afleiðingar að verð hækkar mikið. Þær verðhækkanir gagnast einungis fagfjárfestum. Hækkanir á fasteignamarkaði koma verst niður á ungu fólki sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið, einnig öllum leigumarkaði því að leiguverð fylgir fjármagnskostnaði. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að verið er að fjölga íbúðum á markaði.

Fleira þarf að gera. Byggingarreglugerð þarf að taka til rækilegrar skoðunar. Hún gerir ráð fyrir að minnstu íbúðir geti verið allt að undir 30 fermetrum. Þannig íbúðir eru helst byggðar í fjölbýlishúsum og það þarf að skoða sérstaklega regluverkið, sem er mjög íþyngjandi í kringum íbúðirnar, fyrir utan þessa 30 fermetra. Þá hafa sveitarfélögin mjög mikil áhrif og þar er helst að nefna lóðarverð. Árið 2011 var lóðarverð 4% af byggingarkostnaði, nú er það í kringum 16%. Lóðarverð er grunnur að fasteignamati þannig að sveitarfélögin hafa beinar tekjur af háu lóðarverði. Lóðarverð hefur farið úr 500 þúsund í 5 milljónir á tíu árum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta bitnar tvöfalt á neytendum.