144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

störf þingsins.

[10:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Svör við spurningum hv. þingmanns eða málflutningi hafa legið fyrir opinberlega, og þar á meðal í þingskjölum, í bráðum 6 ár. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 138/2009 í desember 2009 er þetta ágætlega rakið. Þetta eru lög sem heimila staðfestingu niðurstöðu samninga um uppgjör milli gömlu og nýju bankanna og eignarhlutföll í nýju bönkunum. Það frumvarp var samþykkt mótatkvæðalaust, og það má láta þess getið til gamans, herra forseti, vegna umfjöllunar Mogga gamla að undanförnu, að hv. þm. Lilja Mósesdóttir og hæstv. ráðherra Jón Bjarnason greiddu bæði frumvarpinu atkvæði sitt.

Í greinargerðinni er þetta rakið og þar segir meðal annars um skýra afstöðu fjármálaráðuneytisins:

„Uppgjörið og þær breytingar sem urðu á eignarhlutföllunum hafi verið í beinum og órofa tengslum við lög nr. 125/2008 og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá í október 2008 um að færa yfir í hin nýstofnuðu fjármálafyrirtæki eignir og skuldir hinna föllnu banka. Af þessum ástæðum taldi fjármálaráðuneytið að 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, ætti ekki við þar sem umrædd lagagrein mælir fyrir um að afla skuli heimildar í lögum til að selja eignarhluta í félögum. Að mati fjármálaráðuneytisins hefur ríkið ekki selt eignarhluta sinn, enda á ríkið enn stofnframlag sitt eða jafngildi þess í nýju bönkunum þrátt fyrir að eignarhluti þess sé ekki 100% eins og við stofnun félaganna.“

Eignarhlutföllin breytast hins vegar með því að skilanefndir leggja fram nýtt hlutafé í bankana.

Eðli frumvarpsins sem þarna varð að lögum er svo skýrt nánar í greinargerðinni en þar segir:

„Eðli máls samkvæmt er ekki aflað heimildar til að selja tiltekna hluti heldur mælt fyrir um staðfestingu á þeim ráðstöfunum sem leiðir af samningum fjármálaráðuneytisins f.h. ríkissjóðs og þessara aðila um endurfjármögnun og uppgjör og snerta eignarhald ríkisins í hinum nýju bönkum.“(Forseti hringir.)

Frumvarpið, sem varð að lögum, var ekki heimild til að selja hluti heldur til að staðfesta (Forseti hringir.) samningsniðurstöðu. Þannig að Alþingi gerði hvorutveggja í senn, samþykkti mótatkvæðalaust samningsniðurstöðuna (Forseti hringir.) og féllst á þetta eðli gjörningsins.