144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

störf þingsins.

[10:17]
Horfa

Fjóla Hrund Björnsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ferðaþjónustan er mál sem er mér hugleikið. Því fagna ég gríðarlega þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin samþykkti nýlega, en nú fyrir stuttu ákvað ríkisstjórnin að úthluta 850 milljónum til brýnna verkefna á ferðamannastöðum á 51 stað um allt land. Ég varð því að nýta tækifærið hér til að lýsa yfir ánægju minni yfir ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Ferðaþjónustan er gríðarlega verðmæt auðlind sem við verðum að fara varlega höndum um. Mikilvægt er að ferðamaðurinn upplifi þá náttúru sem landið hefur upp á bjóða á sem bestan hátt. Spár sem hafa birst yfir fjölda ferðamanna fyrir þetta ár eru yfir eina milljón. Til samanburðar komu rúmlega 997 þús. ferðamenn til landsins í fyrra, þ.e. árið 2014. Það er mikilvægt að halda vel utan um ferðaþjónustuna því að hún er verðmæt auðlind. Til þess að tryggja ánægju og aukinn ferðamannastraum verðum við að bregðast við í takt við aukningu ferðamanna. Mikilvægt er að stýra ferðamönnum um land allt til að forðast þann gífurlega átroðning sem vinsælustu ferðamannastaðirnir verða fyrir ár hvert. Við vitum að ferðamaðurinn kemur hingað til lands í leit að fallegri náttúru og því er mikilvægt að byggja upp gott aðgengi að náttúrunni. Gaman er að sjá hve mikil uppbygging mun verða á vinsælum ferðamannastöðum sem eru hrikalega fjölfarnir. Sem dæmi má nefna Gullfoss, Geysi og Þingvelli. Auk þess að ferðamannastaðir sem virðast oft gleymast fái úthlutað fjármagni til uppbyggingar. Sem dæmi nefni ég þar Seljavallalaug.

Með þessari aðgerð staðfestir ríkisstjórnin það að framtíðarsýn er í ferðaþjónustu.