144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrst um orð hv. þm. Valgerðar Gunnarsdóttur. Ég skil stöðu málsins þannig að í raun og veru hafi náðst að reka ráðherrann til baka með þau áform sem var búið að melda, bæði gagnvart sveitarstjórnarmönnum og skólameisturum, ekki bara á norðaustursvæðinu heldur víðar um land. Það er vel að öflug umræða og öflugt viðnám úti í samfélaginu hafi raunverulega áhrif á áform ráðherra, en það er náttúrlega ekki gott að við búum við þannig samfélag að stofnanirnar þurfi að verjast sínum eigin ráðherrum. Það er það sem starfsfólk Fiskistofu sat uppi með mánuðum saman, það að verjast ráðherranum sínum. Það er það sem framhaldsskólastigið stendur í núna, að verjast sínum eigin ráðherra. Ég fagna því ef hv. þingmaður telur að flóttinn sé orðinn algjör í þessu máli.

Mig langar til að nefna orð hv. þm. Haraldar Einarssonar um íþyngjandi regluverk byggingarreglugerðar. Það eru hans eigin orð. Ég spyr hvort byggingarreglugerð sé íþyngjandi fyrir fatlað fólk. Er byggingarreglugerðin íþyngjandi fyrir aldraða? Er hún íþyngjandi fyrir þá sem þurfa að fara um íbúðarhúsnæði? Framlag hæstv. ríkisstjórnar til þess að styðja kjarasamninga er að tala um sérstakan byggingarflokk, að koma á sérstökum byggingarflokki — þar sem hvað er gert? Horfið frá kröfum um algilda hönnun. Vita þingmenn hvað algild hönnun þýðir? Það þýðir að farið sé að kröfum um aðgengi fatlaðra. Á sama tíma tala menn um að uppfylla samninginn um réttindi fatlaðs fólks og menn tala um að efla aðgengi fatlaðra og aldraðra. Við eigum kannski, einhver okkar, erfitt með að setja okkur í spor fatlaðra en væntanlega og vonandi eigum við öll eftir að verða gamalt fólk þar sem við viljum geta búið á okkar heimilum eins lengi og nokkur kostur er. Það er það sem algild hönnun snýst um, virðulegur forseti. Og fyrir hvern er slík hönnun íþyngjandi?