144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það getur auðvitað verið kostur að geta nýtt sér sérfræðiþekkingu og mannafla. Það er kannski skiljanlegt að á milli ráðuneyta geti verið þannig ástand að það geti verið kostur að nýta sérþekkingu á milli ráðuneytanna og jafnvel á milli stofnana, en það verður alltaf að gæta að réttindum starfsmanna. Það veikir stöðu starfsmannanna og réttindi þeirra að gera þetta með þessum hætti og þess vegna er mjög skiljanlegt að BHM skuli vera algerlega á móti þessu frumvarpi. Þetta er ekki gott innlegg inn í kjaradeilurnar sem fyrir eru mjög erfiðar.

Maður getur séð það fyrir sér að starfsmaður sé bara svolítið óþekkur, hann getur haft rétt fyrir sér og hann getur verið að tala fyrir munn margra en yfirmönnum og ráðherrum þyki bara gott að hreyfa hann til í starfi þess vegna. En það ætti ekki að vera andi laganna og það ætti þá að skrifa það skýrar inn hver réttindi starfsmannanna eru.

Hér er talað um að breyta starfsmannalögum með þessum hætti. Nú er ég ekki í nefndinni þannig að ég veit ekki alveg hvernig á að fara að þessu, hvort hér sé verið að tala um að taka upp starfsmannalögin og opna þá fyrir fleiri breytingar, sem ég held að sé líka mjög tvísýnt að gera á þessum tímum, þegar fulltrúar í BHM hafa verið í rúmlega átta vikna verkfalli, og deilan þar í algerum hnút. Ég vil vara við slíku og legg til að menn leggi svona breytingar til hliðar.