144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:05]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Það er margt í þessu frumvarpi og eftir því sem við fjöllum meira um það verður manni ýmislegt skýrara, eins og gjarnan gerist.

Varðandi 1. gr. sagði ég í ræðu minni í gær að mér þætti rökstuðningurinn fyrir henni mjög sérstakur, en þar segir að ráðherra kveði á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir nema á annan veg sé mælt í lögum. Það kemur hvergi fram að þetta sé stutt einhverjum efnisrökum. Mér finnst ekki koma fram hvers vegna þetta er mikilvægt. Af hverju þarf það að vera ráðherra sem ákveður hvar stofnun eigi að vera? Hvernig er það gott til dæmis fyrir Stjórnarráðið að hafa þetta á þennan hátt? Hvernig er það gott fyrir landið?

Ég spyr hv. þingmann hvað henni finnst um spurningar mínar um þetta frumvarp og um mælikvarða á faglega stjórnsýslu, af því að hún og fleiri hafa m.a. vitnað til Fiskistofu. Þá má í því sambandi líka velta því upp hvort þetta samrýmist heildaráætlunum í byggðamálum, af því að það átti einhendis að setja niður tiltekna stofnun á meðan störf leka annars ítrekað frá landsbyggðinni. Er það ekki líka þannig að þetta gengur gegn því sem kom fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis, þar sem talað var um ofríki ráðherra og um að auka gagnsæi og allt slíkt, að allt í einu megi einn ráðherra, burt séð frá öllum skilyrðum og öllu slíku, ákveða hvar hann setur niður stofnun hverju sinni?