144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég get tekið dæmi um Menntamálastofnun, eins og ég fór inn á undir liðnum um störf þingsins áðan. Þar erum við með annað dæmi þar sem verið er að búa til eitthvert stjórnsýslulegt apparat án þess að til þess sé beinlínis heimild, a.m.k. að mati umboðsmanns Alþingis sem telur vafa leika á því og vill fá svör við ákveðnum spurningum. Það finnst mér ein af ástæðunum fyrir því að við ættum ekki að vera að fjalla um þetta.

Það er kannski skynsamlegt að þingið setji eitthvað svona í ferli. Telur hv. þingmaður að það gæti verið til dæmis með þingsályktunartillögu eða einhverju slíku, sem við tækjum þá umræðu um í þingsal? Það er líka talað um að draga stofnanir inn í ráðuneytin eða búa til stjórnsýslustofnanir eins og Menntamálastofnun utan ráðuneytis með því fororði að faglega sé verið að styrkja ráðuneytin. Ég hef velt því fyrir mér hvort verið sé að styrkja ráðuneytið eða veikja stofnanir. Mér finnst ekki alltaf vera á hreinu hvernig það er og spyr þingmanninn hvort hún hafi velt því fyrir sér.

Svo er það hin svokallaða armslengd, eins og við höfum sagt, sem snýr að endurskilgreiningu á stöðu stjórnsýslustofnana sem kemur fram í 6. gr. laganna, en þetta er allt saman dregið inn í ráðuneytin; eftirlitið, framkvæmdin. Þetta er í raun allt innan ráðuneytis. Það á að vera nefnd að störfum sem á að móta löggjafarviðmið um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir, hvort þær eigi rétt á sér. Því hefur ekki verið skilað en samt er þetta lagt fram. Ráðuneytið telur að það geti verið fullnægjandi og komi til móts við þau sjónarmið að tryggja ákveðna fjarlægð frá ráðherra að gera eins og hér segir, með leyfi forseta: „Þá opnast með ákvæðinu sá möguleiki (Forseti hringir.) í skipulagi ráðuneytis að vinnu við meðferð kærumála og úrskurði vegna ákvarðana sem teknar eru af sérstökum stjórnvöldum sem undir ráðuneyti heyra sé fundinn staður í sérstakri starfseiningu innan ráðuneytis. “