144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er gott að heyra af fundi með þingflokksformönnum og auðvitað er hægt að hafa á því vissan skilning að forsætisráðherra hafi um annað að hugsa þessa dagana en stöðuna hér í þinginu. En það gengur samt ekki öllu lengur að þingið sé stjórnlaust og stefnulaust og án áætlunar reki það hér frá einum degi til annars án þess að nokkur forusta virðist vera fyrir því eða hugmynd um til hvers það eigi að starfa.

Stjórnarandstaðan hér á þingi hefur sýnt stjórnarmeirihlutanum ótrúlega tillitssemi, verð ég að segja, og ótrúlega mikla þolinmæði gagnvart þessu fáheyrða verklagi þar sem engin áætlun hefur dögum saman verið um starfsemi þingsins og ekkert hefur legið fyrir um það til hvers stjórnarflokkarnir ætlast af þinginu eða hvað ríkisstjórnin vill að hér verði gert. Við þetta verður ekki unað mikið lengur, virðulegi forseti.