144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er svolítið síðan ég og fleiri fórum að vekja athygli á því undir þessum lið, fundarstjórn forseta, að þingið er stjórnlaust, það er án áætlunar, það er án fundartíma fyrir nefndir, fundatímatöflu, og það eru engar raunverulegar þreifingar í gangi eða viðræður milli fulltrúa flokkanna hér á þingi um að leysa úr þessari stöðu. Ég held að ég hafi aldrei séð þetta svona slæmt. Ég velti því fyrir mér: Hvert er hlutverk hæstv. forseta í þessari stöðu?

Þegar svona mörg mál eru fyrirliggjandi þá verður að semja, er það ekki? Þingmenn verða að gefa eftir rétt sinn, stjórnarskrárbundinn og lögbundinn, til að tala í málum, það er það sem þeir hafa fram að færa til samkomulags. Ríkisstjórnin verður að segja hvaða mál það eru sem hún telur nauðsynlegt að koma í gegn. Við fengum 74 mál, eiginlega bara öll mál sem ríkisstjórnin hefur undir. (Forseti hringir.) Mörg þeirra eru enn í nefndum, sum eru ekki komin fram. (Forseti hringir.) Verður hæstv. forseti ekki að nýta dagskrárvald sitt (Forseti hringir.) og vald hér inni til að gera eitthvað annað en bara slá í bjölluna og stíga inn í þessa atburðarás og koma með eitthvert sáttatilboð?