144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Á föstudaginn síðasta átti þinginu að ljúka samkvæmt starfsáætlun þingsins. Það sem liggur fyrir núna er listi með öllum mögulegum og ómögulegum málum, meira að segja málum sem ekki eru komin inn í þingið eða búið er að mæla fyrir. Það er því algerlega ljóst að hér ríkir fullkomið stjórnleysi.

Ég vil við þær aðstæður spyrja forseta hvenær hann ætli sér að funda með forustumönnum flokkanna á Alþingi til að reyna að setja nýja áætlun í gang. Það er fyrsta spurning mín. Svo vil ég í öðru lagi spyrja hvort forseti sé á einhvern hátt að reyna að átta sig á stöðunni í hverri nefnd fyrir sig og þannig reyna að sníða fundatöflu fyrir nefndirnar, þannig að þær geti unnið að sínum málum og líka þá tekið þingmannamál út og önnur mál sem við vildum gjarnan koma inn í umræðuna fyrst þingmenn halda hér áfram.

Þetta eru tvær spurningar og ég vonast eftir skýrum svörum.