144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ágætt að heyra að forseti telur sig hafa yfirsýn yfir nefndastörfin. Það eru augljóslega mismörg mál sem þar eru inni og það er jafn augljóst að ef ástandið heldur áfram sem horfir er okkur ekkert að vanbúnaði að vinna þau mál, við verðum bara að fá töfluna aftur í gang og getum þá gert þetta á hefðbundinn hátt. Það er alveg ljóst að ekki fer að rofa eitthvað til í samskiptum, ef forsætisráðherra er stífur á því að vilja ekki tala við stjórnarandstöðuna — og það er þannig, virðulegur forseti, það er staða málsins í dag, það er alveg óhætt að segja það — lítur málið þannig út að við þurfum að funda og þá þarf að setja hér upp áætlun, bæði starfsáætlun og nefndaráætlun. Og þangað til ljóst verður að ráðherranum þóknast að boða til funda held ég að það væri skynsamlegt, hvort sem það er í viku, tíu daga eða hálfan mánuð eða hvað það nú er sem forseti treystir sér til að gera.

Ef það vildi svo til í millitíðinni að hæstv. forsætisráðherra sæi sér fært að mæta hér og tala við formenn stjórnarandstöðuflokkanna er alltaf hægt að breyta henni.