144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þeir sem eru eldri en tvævetur á þingi vita alveg hvað er í gangi núna. Það sem er í gangi er að ekki nást samningar og þá er minni hlutinn alltaf í hægagangi, þetta er kallað að vera í fyrsta gír og vera þolinmóður. Það er þetta kallað á þingi og þetta er staðan. Það veit forseti, það vita allir. Það veit hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Og við tefjum og við völdum samfélaginu skaða. Þegar deilandi aðilar valda þriðja aðila skaða á einhver að grípa inn í, og spyrjum okkur sjálf: Hver getur gripið inn í? Hæstv. forseti getur gripið inn í. Hann getur sagt við aðila sem deila: Nú skulið þið setjast niður inni í herbergi. Ég afgreiði ekki nein mál, ég set ekki nein mál á dagskrá, ég fresta þingfundum þar til þið setjist niður inni í herbergi og leysið þessa deilu. Þetta er það sem forseti mundi gera ef hann væri forseti þingsins umfram það að vera forseti stjórnarflokkanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)