144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Það þarf ekki að rifja það upp, það hefur verið ítrekað hér — og ég vænti þess að hæstv. forseti sé alveg klár á því — að starfsáætlun þingsins lauk á föstudaginn var.

Í fyrradag var haldinn fundur með formönnum stjórnmálaflokkanna á Íslandi. Hvað gerðist á þeim fundi? Lagður var fram listi undir yfirskriftinni Forgangsmál. Á þeim lista voru 74 mál. Þetta gerðist í fyrradag. Það liggur fyrir, ekki bara þess vegna heldur vegna ítrekaðra vandamála og klúðurslegrar stöðu ríkisstjórnarinnar að það er engin forusta fyrir ríkisstjórninni, hún er ekki fyrir hendi.

En nú spyr ég: Er forusta fyrir Alþingi? Aðskilnaður framkvæmdarvalds og löggjafarvalds er með þeim hætti að við eigum að geta haldið hér reisn og haldið áfram löggjafarstarfinu sem okkur er sæmandi þrátt fyrir forsætisráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson með því að forseti þingsins taki nú málin í sínar hendur en fari ekki að boða okkur til fundar í hádeginu til að ræða kvöldfund.