144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð nú að lýsa ákveðnum vonbrigðum með það, eins og hér kom fram, að haldinn var fundur flokkanna á mánudag, það er miðvikudagur í dag, og ekkert hefur gerst síðan. Formenn stjórnarflokkanna lýstu yfir þeim ásetningi sínum að klára öll sín mál og ætla að klára megnið af þeim núna eftir að starfsáætlun Alþingis lýkur. Þetta er þvert á það sem hæstv. forseti hefur boðað í ítrekuðum ræðum um það hvernig hann vill sjá þinghaldið.

Ég vil skora á hæstv. forseta að stilla formönnum stjórnarflokkanna upp við vegg. Það gengur ekki að koma hér með mál seint inn og efna svo í fullkomið kaos hér undir lok þingsins. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá hv. þingmönnum. Það virðist ekki vera forusta fyrir því í nefndum þingsins hvaða málum eigi að ljúka og hverjum ekki, nema menn haldi í alvörunni að það gangi að koma hér fram með mál vanreifuð seint og illa og ætlast svo til þess að starfsáætlun sé rofin til að málum verði komið í gegn. Það, herra forseti, gengur auðvitað ekki.