144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það eru sérstök öfugmæli að hlusta á kaptein Pírata vanda um fyrir öðrum þingmönnum um það að ástunda hér breytt vinnubrögð í þinginu, leiðandi hér ásamt öðrum fulltrúum Pírata og minnihlutaflokka grímulaust málþóf á þessu þingi. Það er fróðlegt við þessar aðstæður að rifja upp nokkur ummæli frá síðasta kjörtímabili þar sem m.a. þingmenn sem staddir eru í salnum viðhöfðu á þeim tíma en þar var meðal annars sagt: „Ég mótmæli því að stjórnarandstaðan geti talað þannig að hún geti boðið meiri hluta þingheims þetta eða hitt. Það er þingræði í þessu landi og það er meiri hluti þingheims og vilji hans sem hlýtur að stjórna störfum þingsins.“ — „Þessi stjórnarandstaða hér er svo smá í sniðum að hún reynir að koma í veg fyrir að meiri hlutinn fái að koma skoðun sinni á framfæri.“

Svona er hægt að halda áfram. Það er auðvitað geysilega vel boðið af minni hlutanum að taka völdin í þinginu og ráða dagskrá þingsins og ráða framvindu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, ráða áherslu mála. Ég held að hv. þingmenn minni hlutans ættu að fara að standa við þau orð að fara að breyta vinnubrögðum á Alþingi ef það er eitthvað að marka sem þau vilja með því að tala um það. (Gripið fram í.) Þau eru ekki að gera það. Þau eru þinginu til hneisu, þingstörfunum til hneisu og sjálfum sér til skammar. (Gripið fram í.)