144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Hann kom með skemmtilegt innlegg varðandi valdið og hvernig valdið getur virkað á ýmsa vegu. Við þekkjum valdhroka, valdníðslu, valdbeitingu. Vald er mjög vandmeðfarið og stundum hefur verið sagt: Veldur hver á heldur.

Við sem viljum búa í lýðræðislegu þjóðfélagi viljum að valddreifing sé sem mest meðal þegnanna. Við erum á þingi sem er lýðræðislegt, við búum við þingbundið lýðræði, höfum fulltrúa á þingi sem eru kosnir á fjögurra ára fresti. Ég tel að fulltrúalýðræði sé gott eins langt og það nær en við þurfum líka að geta vísað stórum málum til þjóðarinnar, ég held að það sé mjög brýnt að við setjum slíkt ákvæði inn í stjórnarskrá.

Aðeins varðandi það sem kemur fram í 1. gr. laganna, um að ráðherra hafi heimild til þess að ákveða einn og sér hvar stofnanir séu staðsettar, þ.e. ef þær væru fluttar frá höfuðborgarsvæðinu út á land — mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því, hvort hann telji að hægt sé að gera hlutina á annan hátt en þennan og horfa þá til lýðræðislegra vinnubragða hér á þingi og hugsa til þess um leið að það að flytja störf út á land í opinbera geiranum er líka hluti af valddreifingu, að valdið og stofnanir komi nær fólki hvar sem það býr í landinu. Við greiðum öll, hvar sem við búum, okkar skatta og skyldur til þjóðfélagsins og við viljum hafa þjónustuna og ýmsar stofnanir, hvort sem það eru útibú eða annað, í okkar nærumhverfi.