144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þessa frábæru spurningu, sem varðar valddreifingu og staðsetningu stofnana í því samhengi. Það er meðal annars af þessum ástæðum sem ég hef engar sérstakar skoðanir á því í sjálfu sér hvort Fiskistofa eigi að vera í Hafnarfirði eða einhvers staðar annars staðar. En ef við ætlum að fara að haga staðsetningu stofnana eftir þeim viðmiðum sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. til valddreifingar, þá á það að vera viðmiðið en hér er lagt upp með að það sé einfaldlega ráðherra sem ráði.

Með hliðsjón af því hvernig hæstv. ráðherra fer með vald sitt, sérstaklega hæstv. forsætisráðherra en einnig aðrir hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn, þá treysti ég þeim ekki til þess að staðsetja stofnanir á málefnalegum forsendum, ég einfaldlega treysti þeim ekki til þess. Þeir hafa ekkert gert eða sagt sem bendir til þess að þeir séu þess trausts verðir.

Að því sögðu þætti mér mjög vænt um það að ræða hér hugmyndir sem gengju út á það að staðsetning stofnana miðaði að valddreifingu, ég held að það væri mjög áhugavert verkefni; ég hefði mikinn áhuga á því, þess vegna finnst mér þetta frábær spurning. En það verður ekki gert með því einfaldlega að láta meira vald í hendur ríkisstjórnarinnar eða einstakra ráðherra. Það á frekar heima hjá verkefnisstjórn sem tekur mið af fólksfjölda og atvinnuástandi, sviptingum síðustu áratuga eða einhverju því um líku, af málefnalegum ástæðum sem við getum rætt hér á forsendum aðgengilegra gagna, á forsendum sem við getum metið.

Það er ekki spurningin sem við stöndum frammi fyrir hér. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir hér og nú er þessi: Treystum við hæstv. forsætisráðherra til að ákveða hvar stofnanir undir honum séu staðsettar? Treystum við honum til þess að taka málefnalegar ákvarðanir? Svarið í mínu tilfelli er afdráttarlaust nei, ég treysti honum engan veginn til þess og þess vegna gæti ég aldrei samþykkt þessa tillögu.

En mér þætti mjög gaman að ræða tillögu sem væri nær því sem hv. þingmaður nefnir.