144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmanninum er lagið að slá á svolítið aðra strengi en venjulega eru í þessum sal og það hristir að minnsta kosti upp í heilasellunum á mér.

Vald er viðbjóður, segir hann, og það má sannarlega taka undir það í ákveðnum tilfellum. Vald er náttúrlega viðbjóður ef misfarið er með það. En ég held hins vegar að við sleppum aldrei frá því að einhverjir hafi meira vald en aðrir. Löggjafarsamkundan hefur vald og þingmaðurinn sjálfur hefur sóst eftir að vera hér, væntanlega til þess að fara með þetta vald.

Þingmaðurinn segir: Fólk ber ekki virðingu fyrir okkur og við þurfum að gera eitthvað til að fólk beri virðingu fyrir okkur. Á fólk þá að bera virðingu fyrir því valdi sem við höfum? Ég held nefnilega að það eigi ekki að snúast um það, heldur eigi það að snúast um hvernig við hegðum okkur og hvernig við bregðumst við. Ég held að það sé lykilatriði hér að þeir sem fara með valdið beri virðingu fyrir valdinu og fari þess vegna varlega með það. En ég held að ég yrði svolítið hrædd ef hinir sem ekki hafa valdið bæru alltaf virðingu fyrir því valdi. Ég held að þetta snúi þannig.

Mig langar líka til að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki svolítið erfitt í umræðu eins og þessari að við tengjum umræðu, til dæmis eins og um þetta frumvarp, við persónur. Það er kannski af því að það er svolítið sjálfhverft af ríkisstjórninni. En við erum alltaf að tengja svona mál við persónur og það ættum við náttúrlega ekki að gera hér á Alþingi. (Forseti hringir.) Við eigum ekki tengja löggjöf við persónur. Getur hann verið sammála mér í því?