144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála því að við eigum ekki að tengja löggjöf við persónur, en það er einmitt þess vegna sem það er mikilvægt að við tölum mjög opinskátt þegar svo virðist sem löggjöfin sé gerð fyrir persónur tiltekinna ráðherra eða pólitíska hagsmuni þeirra, það finnst mér.

Ég veit ekkert um persónu hæstv. forsætisráðherra, en ég gagnrýni hann mjög harðlega vegna þess að sá sem situr í þeim stól núna er að mínu mati fullkomlega óhæfur til verksins og við eigum að tala um það opinskátt og án þess að vera hrædd við það að nefna það að hann heitir vissulega Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hann heitir það og hann er sá maður. Að mínu mati ræður hann ekki við starfið og mér virðist það endurspeglast í öllum störfum hér.

Aðeins yfir í heimspekilegri vangaveltur hv. þingmanns, sem mér þykja talsvert áhugaverðari en persóna hæstv. forsætisráðherra. Við sleppum aldrei við það að sumir hafi vald umfram aðra. Það er rétt. Þess vegna er mikilvægt að við höfum stjórnarskrá og þess vegna er mikilvægt að þjóðin hafi leiðir til þess að grípa inn í störf valdhafa. Ég veit að við munum aldrei búa í fullkomnum heimi þar sem enginn hefur vald yfir öðrum, en það er einmitt af þeim sökum sem við eigum ekki að láta eins og við getum lifað í þeim heimi. Það þýðir að við þurfum að hafa takmarkanir á valdinu. Það þýðir að við þurfum að hafa ferli í kerfinu til þess að dreifa valdinu, til þess að svipta fólk valdi o.s.frv. Við höfum ekki þessi ferli eins og er nema í gegnum kosningar á fjögurra ára fresti.

Ég segi það fyrir sjálfan mig að ég settist á þing til þess fyrst og fremst að veita fólkinu sjálfu meira vald yfir eigin lífi og sömuleiðis almenningi í formi lýðræðis. Það er mitt helsta verk hér og það er það sem mér þykir mikilvægast að við gerum. Ég kom ekki inn á Alþingi til þess að sækjast eftir valdi og ég skil ekki alveg þann hugsanagang ef ég segi alveg eins og er, ég fatta það ekki, ég er bara svo vitlaus.

Síðast en ekki síst varðandi það sem hv. þingmaður spyr um, sem mér finnst mjög áhugavert, þ.e. hvort fólk eigi að bera virðingu fyrir valdi okkar ef við berum — (Forseti hringir.) ég man ekki hvernig hv. þingmaður orðaði þetta, ég kem að því í seinna andsvari.