144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:24]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég tel að það sé eitt af þessum módelum sem hægt er að líta til; einnig þeirrar hugsunar, sem hefur átt vaxandi fylgi að fagna, sem stundum er á ensku, með leyfi forseta, kallað „one stop shop“, þ.e. að íbúar geti nálgast opinbera þjónustu á einum stað eða að minnsta kosti vænst þess að fá leiðbeiningar á einum stað um hvert þeir eigi að fara til þess að leita þjónustu.

Til að gera þetta á landsvísu þarf að hafa sveigjanleikann til þess að sveitarfélögin, samtök þeirra, íbúarnir sjálfir, atvinnulífið á hverjum stað, geti þróað þetta eftir þörfum íbúanna á hverjum stað. Við þurfum að vera örvandi. Við þurfum að vera sveigjanleg í þessa átt. Við eigum ekki að múra starfsemina innan veggja og tala um að flytja stofnanir. Með þeirri orðræðu erum við að vinna gegn þessari (Forseti hringir.) þróun sem er óhjákvæmileg, jákvæð og dýrmæt fyrir byggð í landinu öllu.