144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að ákveðinn sveigjanleiki sé til staðar þannig að það séu verkefnin sem ráða för, það er mjög mikilvægt. En hins vegar hef ég haft áhyggjur af því, og hef verið hugsi yfir því, undanfarin ár að mér finnst algjörlega skorta heildarsýn í því á hvaða leið við erum.

Stundum er verið að færa verkefni úr ráðuneytum út í stofnanir, stundum er verið að draga verkefni úr stofnunum inn í ráðuneyti. Það virðist algjörum tilviljunum háð, það er engin heildarsýn hvað þetta varðar. Stundum er verið að stækka úrskurðarnefndir, sameina margar úrskurðarnefndir.

Við þyrftum að skoða kæruleiðir í þessu tilfelli. Ef ákvarðanir eru ekki lengur teknar af stofnun heldur af einhvers konar ráðuneytisdeild, sem væri þá stofnun, er sú ákvörðun þá kæranleg til ráðherra? Eða hvert er hún kæranleg ef ákvörðunin er tekin af stofnun sem er ekki lengur stofnun heldur einhvers konar innvols í ráðuneyti? Það er eitt af því sem þarf að horfa til í þessum efnum.