144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að taka undir þetta. Mér finnst það mjög sérkennilegt þar sem ég hef fylgst með stjórnmálum síðan ég var sjö ára að sjá það núna þegar þessir ungu menn taka við stjórnartaumunum á Íslandi, kornungir menn, að þeir skuli, burt séð frá pólitískri skoðun eða pólitískri afstöðu til samfélagsins, fara svona grimmt yfir í gamla aðferðafræði. Mér finnst að sumu leyti eins og þar sé einhver fortíðarþrá, ekki bara í efni, þjóðernispopúlískum áherslum og ýmsu því um líku, heldur líka í aðferð. Mér finnst það mikið áhyggjuefni vegna þess að öll þróun undanfarin ár og áratugi hefur verið í þá veru að auka lýðræði, ýta ákvarðanatöku út til almennings, út til fólksins, út í sveitarfélögin, inn á vinnustaðinn o.s.frv., en þessi ríkisstjórn vinnur alveg í þveröfuga átt eins og hún sé að streitast á móti því sem er bara tímans þungi niður.